Á dögunum barst Gnúpverjum áhugavert bréf frá KKÍ. Innihélt þetta bréf kæru á hendur félaginu sem dómararnir Friðrik Árnason og Guðmundur Ragnar Björnsson sendu inn til KKÍ eftir leik Gnúpverja gegn Skallagrím sem fram fór í Kórnum 2. nóvember síðastliðinn.

Ekki þótti okkur mikið til kærunnar koma. Var hún full af rangfærslum og ýkjum og engu líkara en að dómarar leiksins hafi ekki lagt kæruna fram í réttu hugarástandi.

Kæran snéri að mestu leyti að því að áhorfandi í leiknum átti að hafa stigið inn á völlinn á einhverjum tímapunkti og gengið of langt í gagnrýni sinni á dómgæsluna í leiknum. Einnig þótti dómurunum ástæða til að gera athugasemd við ritaraborðið með orðunum: “aldur starfsmanna ritaraborðs og reynsla ekki til fyrirmyndar.”

Áður en lengra er haldið vil ég aðeins tala um þessa gagnrýni dómaranna. Til að gera langa sögu stutta þá er þetta það sem gerði mig hvað reiðastan varðandi þessa kæru. Fyrir það fyrsta kom lítið sem ekkert upp á hjá ritaraborðinu í þessum leik og höfum við Gnúpverjar oft á tíðum lent í töluverðum töfum útivöllum vegna ritaraborðs, miklu meiri en nokkurn tímann hjá okkur. Aldur starfsmannanna kemur málinu ekkert við og í staðinn fyrir að koma með svona athugasemdir teldi ég að dómarar ættu að veita stuðning og standa með þeim sem eru að vinna á ritaraborði til að leikurinn geti farið fram. Bentum við á það í svari okkar við kærunni að þetta væru reynslumiklir drengir þrátt fyrir ungan aldur og hefðu meira að segja verið á ritaraborði í Domino’s deild kvenna. Þessi athugasemd dómaranna var sú sem átti hvað minnst rétt á sér og fékk mann til að hugsa að kæran væri ekki lögð fram af heilum hug heldur til að koma einhvers konar höggi á körfuknattleiksdeild Gnúpverja.

Vil ég taka það fram að ég er afar stoltur af því starfi sem strákarnir á ritaraborðinu hafa unnið á okkar heimaleikjum. Eru Gnúpverjar afar heppnir að hafa þá og vonum að þeirra frábæra starf muni halda áfram í allan vetur.

En hvað um það. Áhorfandi gekk vissulega heldur langt fram í gagnrýni sinni í leiknum þó hann hafi vissulega aldrei stigið inn á völlinn (sem við gátum sem betur fer sýnt fram á með myndbandsupptökum) og var vísað úr húsi að beiðni annars dómara leiksins. Gátum við sýnt með mótrökum að eiginlega öll atriði þessarar kæru stæðu á afar veikum grunni og sýnist okkur að nefndin sé sammála okkur þar.

Besta samantektin á kærunni kemur einmitt fram í úrskurði aga- og úrskurðarnefndar KKÍ:

“Það er tekið fram að kæra sú sem lögð var fram í málinu var stuttorð og illa úr garði gerð. Á síðari stigum málsins drógu kærendur verulega úr kæru sinni ásamt því að breyta lýsingu á málsatvikum. Þessi vinnubrögð eru aðfinnsluverð og ámælisverð.”

Engu að síður kemst nefndin að þeirri niðurstöðu að við sætum áminningu og fjársekt að upphæð 20.000 kr. Úrskurðinn má lesa í heild sinni hér: http://kki.is/library/Skrar/domar/Urskurdur-agamal%2019-2017-2018.pdf

Alveg eins og hjá leikmönnum liðsins þá er mikill ástríða hjá stuðningsmönnum okkar og því fór sem fór. Við hvetjum auðvitað alla áhorfendur okkar um að reyna að halda ró sinni í leikjum þegar kemur að dómgæslunni. Við tökum ábendingum KKÍ vel þó það hefði vissulega verið hægt að koma þeim á framfæri án áminningar og sektar en við unum þessari niðurstöðu engu að síður.

Gnúpverjar lofa sérmerktum gæslumönnum til að tryggja öryggi allra sem gera sér ferð í Fagralund nú eða Kórinn í framtíðinni.

Til að koma til móts við þennan kostnað ætlum við að hafa tilboð á ársmiðaderhúfunum okkar. Til þess að fá 1.000 kr. afslátt af derhúfunum þarft þú bara að setja inn afsláttarkóðann PASSION á vefverslun okkar. Mun þessi afsláttur gilda frá og með deginum í dag fram að næsta heimaleik okkar sem er gegn Breiðablik 26. nóvember næstkomandi.

Pistil þennan ritaði Jóhannes Helgason, framkvæmdastjóri körfuknattleiksdeildar Gnúpverja.