Gnúpverjar gerðu sér ferð til Hveragerðis til að leika síðasta leikinn í fyrstu umferð af þremur í 1. deild KKÍ þetta tímabil. Eftir þrjá tapleiki í röð hjá Gnúpverjum voru vonir bundnar við að ná loks sigri.

Hamar höfðu unnið fjóra af fyrstu sjö leikjum sínum og eru eina liðið í deildinni sem hefur tekist að leggja Breiðablik að velli. Hamar hafa ekki tapað á heimavelli síðan í annarri umferð gegn Skallagrím og eru ágætis varnarlið.

Gnúpverjar hófu leikinn afar vel og höfðu ágætis stjórn á leiknum. Allt annar bragur var á varnarleik Gnúpverja þegar þeir heimsóttu Hamarsmenn í blómabæinn Hveragerði. Í fyrstu sjö leikjum tímabilsins höfðu Gnúpverjar fengið á sig að meðaltali 97 stig í leik og sér það hver heilvita maður að slíkt er ekki vænlægt til árangurs í næstefstu deild.

Með öflugum varnaleik og fínum sóknartilburðum unnu þeir fyrsta leikhluta 21 – 27. Héldu þeir uppteknum hætti framan af í öðrum leikhluta og var mesti munurinn 11 stig Gnúpverjum í vil. Hamarsmenn voru þó aldrei skammt undan, minnkuðu muninn og var staðan í hálfleik 42 – 46 fyrir Gnúpverjum.

Þriðji leikhluti var afar jafn og skiptust liðin á að halda forystunni. Þegar um þrjár mínútur voru eftir af þriðja leikhluta náðu Hamarsmenn þó ágætis kafla, komust yfir og juku forystuna í fimm stig og var staðan 69 – 64 fyrir Hamri í lok leikhlutans. Varnarleikur Gnúpverja brást örlítið í þessum leikhluta þar sem Hamar skoraði 27 stig í þriðja leikhluta.

Gnúpverjar hófu síðan fjórða leikhluta miklu betur. Fóru strax í það að minnka muninn aftur og höfðu náð forystu í leiknum þegar um tvær mínútur voru liðnar af fjórða leikhluta. Héldu þeir þessari forystu mestallan leikhlutan en náðu aldrei að stinga Hamarsmenn almennilega af sem fylgtu fast á eftir. Gnúpverjar komust fimm stigum yfir eftir þriggja stiga körfu Ægis Hreins Bjarnasonar þegar tvær mínútur og átta sekúndur voru eftir og var staðan 82 – 87. Reyndust þetta þó vera síðustu stig Gnúpverja og með 8 – 0 áhlaupi síðustu tvær mínútur leiksins tryggðu Hamarsmenn sér sigur. Lokaniðurstaðan 90 – 87 fyrir Hamri.

Það er vægast sagt athyglisvert að skoða tölfræði leiksins sem snýr að dómgæslunni. Sáu dómararnir ástæðu til að dæma hvorki meira né minna en 28 villur á Gnúpverja, en einungis 13 á Hamarsmenn. Tóku Hamarsmenn 35 vítaskot en Gnúpverjar einungis 9. Ofan á það tókst Hamarsmönnum að halda Everage Richardson í 24 stigum (hann var með að meðaltali tæplega 40 stig í leik fyrir þennan leik) en brutu aðeins þrisvar sinnum á honum allan leikinn að mati dómaranna. Tók hann eitt vítaskot. Að brjóta aðeins þrisvar á leikmanni sem er jafn mikið með boltann og Everage sem spilaði tæpar 37 mínútur í leiknum er ótrúlegt. Annaðhvort er Hamar eitt besta varnarlið Evrópu og þeirra leikmenn einkar prúðir og lunknir varnarmenn sem geta stoppað leikmenn án þess að brjóta á þeim eða eitthvað verulega mikið var að dómgæslunni í leiknum. Því miður þykir mér það seinna líklegra.

Fyrir leikinn í gær höfðu Hamarsmenn fengið dæmdar á sig á meðaltali 21,8 villur í leik í fyrstu sjö leikjum sínum, en fá svo bara 13 dæmdar á sig í gær.

Alvarlegasta dæmið um slaka dómgæslu kom í lok leiks þegar staðan var 87 – 87 og Everage Richardson keyrði að körfunni og tók sniðskot þegar sjö sekúndur voru eftir af leiknum. Var hann hakkaður niður af leikmönnum Hamars  sem augljóslega brutu á honum en ekkert dæmt.

Var þetta annar leikur Gnúpverja í vetur sem tapast eftir að liðið hafði yfirhönd í fjórða leikhluta. Þrátt fyrir að utanaðkomandi áhrif hafi sett strik í reikninginn í þessu tilfelli þá þarf liðið að bregðast við og finna leiðir til að halda ró sinni og klára leiki, landa þessum erfiðu sigrum í jöfnum leikjum. Margt jákvætt var þó í leik Gnúpverja sem spiluðu mjög fína vörn og þurftu Hamarsmenn að hafa verulega mikið fyrir þessum sigri á heimavelli.

Margir leikmenn Gnúpverja spiluðu virkilega vel í þessum leik. Stigahæstur var Everage Richardsson með 24 stig. Var hann einnig með flest fráköst, 10 talsins og flestar stoðsendingar eða 11 talsins. Var Everage Richardson því með þrefalda tvennu í leiknum sem er hans fyrsta fyrir félagið. Frábær framistaða hjá besta leikmanni deildarinnar. Fjórir aðrir leikmenn Gnúpverja komu sér í tveggja stafa tölu í stigaskori. Eyþór Ellertsson var með 10 stig, Atli Örn Gunnarsson með 13 stig í sínum fyrsta leik fyrir Gnúpverja, Elvar Sigurðsson með 14 og Ægir Hreinn Bjarnason með 16. Atli Örn Gunnarsson átti einnig næst flest fráköst í leiknum, 9 talsins og var Ægir Hreinn Bjarnason með næstflestar stoðsendingar eða 3 talsins.

Nánari tölfræði og frekari upplýsingar um leikinn má nálgast á heimasíðu KKÍ.

Leikskýrsluhöfundur: Jóhannes Helgason, framkvæmdastjóri körfuknattleiksdeildar Gnúpverja.