Það var komið að því að verja Lundinn (e. Defend the Lund) hjá Gnúpverjum. Eftir eins stigs tap á föstudaginn gegn Fjölni tóku Gnúpverjar á móti liði Snæfells. Snæfellingar með 6 stig eftir fyrstu 6 umferðirnar og næst besta erlenda leikmann fyrstu deildar, Christian David Covile, innanborðs (sá besti er auðvitað Everage Richardson, leikmaður Gnúpverja).

Fyrir leik töluðu leikmenn Gnúpverja um að gera betur en gegn Fjölni og var lagt upp með að selja sig dýrt. Jafnræði var meðal liðanna til að byrja með en staðan var 18 – 21 fyrir Snæfelli þegar um sjö mínútur voru liðnar af fyrsta leikhluta. Á þeim þremur mínútum sem eftir voru af fyrsta leikhluta gáfu Snæfellingar aftur á móti heldur betur í og skoruðu 20 stig gegn 6 stigum Gnúpverja. Staðan því 24 – 41 eftir fyrsta leikhluta.

Vörnin var öllu skárri í öðrum leikhluta, þó hún hefði getað verið miklu betri, þar sem Gnúpverjar náðu að halda Snæfelli í 22 stigum en skoruðu sjálfir 23 stig. Staðan eftir fyrri hálfleik var 47 – 63 fyrir Snæfelli.

Ljóst var að 16 stiga forskot Snæfellinga yrði ekki óyfirstíganlegt og var ætlun Gnúpverja að halda áfram að saxa á þetta forskot í seinni hálfleik. Það gekk örlítið betur fyrri part þriðja leikhluta að stoppa Snæfellinga en á sama tíma gekk Gnúpverjum illa að skora. Minnst varð munurinn 13 stig Snæfelli í vil í þriðja leikhluta en í lok leikhlutans leiddu Snæfellingar með 23 stigum, 65 – 88.

Meiri varð munurinn ekki og náðu Gnúpverjar aðeins að laga stöðuna til. Sigur Snæfellinga var þó aldrei í raunverulegri hættu og endaði þetta með frekar léttum og öruggum sigri þeirra, 95 – 110. Snæfellingar einfaldlega töluvert betri en Gnúpverjar í dag og vel að þessum sigri komnir.

Það er verulegt áhyggjuefni hvað Gnúpverjum gengur illa að spila vörn. Eru þeir að fá á sig að meðaltali 97 stig í leik í þessum fyrstu sjö leikjum og er það versti árangurinn í deildinni. Það gengur ágætlega að skora enda Everage Richardson með 39,71 stig að meðaltali í leik og aðrir leikmenn ná einnig alltaf að setja nokkur stig á töfluna. Þessi leikur var sá þriðji í vetur þar sem Gnúpverjar fá á sig yfir 100 stig og ljóst að liðið nær ekki að vinna marga, ef nokkra, leiki í vetur ef að andstæðingurinn fær að skora svona mikið.

Everage Richardson var með 51 stig í leiknum og 9 fráköst. Næstir í stigaskori voru Tómas Steindórsson með 12 stig og Ægir Hreinn Bjarnason með 11. Tómas var með flest fráköst eða 10 talsins. Þórir Sigvaldason og Hákon Már Bjarnason voru með flestar stoðsendingar eða 4 hvor um sig.

Nánari tölfræði og frekari upplýsingar um leikinn má nálgast á heimasíðu KKÍ.

Leikskýrsluhöfundur: Jóhannes Helgason, framkvæmdastjóri körfuknattleiksdeildar Gnúpverja.