Næsta verkefni Gnúpverja var stórt, að taka á móti ósigruðu liði Skallagríms sem hafa farið mikinn í deildinni, unnið sína fyrstu fjóra leiki og það nokkuð örugglega. Gnúpverjar engu að síðu kokhraustir eftir tvo sigra í röð og staðráðnir í að sýna það og sanna að þeir eigi fullt erindi í þessa næstefstu deild á Íslandi.

En Gnúpverjar hófu leikinn vægast sagt skelfilega. Fyrsti leikhluti endaði 20 – 40 Skallagrím í vil og var vörnin hjá Gnúpverjum varla til staðar. Leitun er að verri byrjun hjá liði og ljóst að erfitt yrði fyrir Gnúpverja að ná einhverju úr þessum leik. Seinni leikhluti var skárri og Gnúpverjar hægt og rólega að komast í takt við leikinn. Engu að síður bættu Skallagrímsmenn frekar í og var staðan 42 – 67 í hálfleik, Skallagrímur 25 stigum yfir. Það þýðir ekki fyrir nýliða í þessari deild að byrja að spila körfubolta í öðrum leikhluta, sérstaklega gegn jafn sterkum andstæðing og lið Skallagríms er.

Sótillur þjálfari Gnúpverja, Máté Dalmay, strunsaði manna fyrstur inn í klefa eftir annan leikhluta til að lesa yfir hausamótunum á sínum mönnum í hálfleik. Ljóst var að ef spilamennskan yrði svona út allan leikinn að tapið yrði stórt og vandræðalegt.

Allt annað lið Gnúpverja mætti til leiks í seinni hálfleik. Hart var barist og var ljóst að Gnúpverjar ætluðu ekki að láta valta yfir sig. Með frábærri vörn og glæsilegum sóknarleik náðu þeir að minnka muninn úr 25 stigum niður í 8 með því að sigra leikhlutann 38 – 21. Endurkoma var í spilunum og fullyrðir undirritaður að eitthvað var farið að fara um Skallagrímsmenn eftir þetta áhlaup Gnúpverja.

Mikið gekk á í leiknum og dómararnir höfðu lítil tök á honum og gekk illa að halda sömu línu í gegnum leikinn eða dæma jafnt á bæði lið. Dómgæslan fór meira að segja svo mikið fyrir brjóstið á einum áhorfanda að vísa þurfti viðkomandi út úr húsi þegar öðrum dómara leiksins þótti áhorfandinn hafa gengið of langt í mótmælum sínum.

Of mikil orka virðist þó hafa farið í þetta áhlaup því að Gnúpverjar náðu ekki að halda uppteknum hætti í fjórða leikhluta. Náðu þeir einungis að skora fimm stig á fyrstu fimm mínútunum í fjórða leikhluta og það úr 13 skotum. Eitt af níu þriggja stiga skotum fór ofan í og eitt af fjórum tveggja stiga skotum. Á sama tíma settu liðsmenn Skallagríms í gír og náðu muninum aftur upp í 20 stig um miðjan fjórða leikhluta. Gnúpverjar náðu þó að laga stöðuna örlítið og endaði leikurinn með 96 – 110 sigri Skallagríms. 14 stiga tap því staðreynd eftir sæmilegan seinni hálfleik.

Lið Skallagríms vel að sigrinum komið. Ljóst er að þeir ætla sér beinustu leið upp og virðast fyllilega færir um það.

Margt jákvætt var hægt að taka úr spilamennsku Gnúpverja í þessum leik en það er ljóst að liðið gengur engan veginn sátt frá borði. Það er mitt mat að tapið sem slíkt sé ekki það sárasta, heldur að ljóst er að Gnúpverjar hefðu getað gert mikið betur og jafnvel fengið eitthvað út úr þessum leik ef spilamennskan hefði verið betri í fyrsta leikhluta.

Everage Richardson var stigahæstur í liði heimamanna með 35 stig. Var Everage einnig með flest fráköst eða 10 talsins. Þórir Sigvaldason átti stórleik og skoraði 22 stig á þeim 24 mínútum sem hann var inn á. Ægir Hreinn Bjarnason átti einnig góðan leik, var með 9 stig og flestar stoðsendingar eða 6 talsins. Garðar Hreinn Bjarnason var sterkur undir körfunni og náði 9 fráköstum og skoraði 7 stig.

Næstu leikir Gnúpverja verða á föstudaginn (10.okt.) gegn Fjölni í Grafarvoginum og á sunnudaginn (12.okt.) gegn Snæfelli á heimavelli í Fagralundi.

Nánari tölfræði og frekari upplýsingar um leikinn má nálgast á heimasíðu KKÍ.

Leikskýrsluhöfundur: Jóhannes Helgason, framkvæmdastjóri körfuknattleiksdeildar Gnúpverja.