Garðar að gúffa í sig girnilegum Krispy Kreme kleinuhring. Þeir leikmenn Gnúpverja sem ná sóknarfráköstum fá að bera stóra gyllta keðju með stórum gylltum G bókstaf þegar þeir koma næst á bekkinn og þar sem Garðar kláraði leikinn með flottu sóknarfrákasti fékk hann keðjuna og G-ið eftir leik.

Í kvöld mættust í Fagralundi tvö lið í leit að sínum fyrsta sigri á tímabilinu þegar Gnúpverjar tóku á móti ÍA. Ljóst var að eitthvað varð undan að láta og var boðið upp á mjög fjörugan leik og það litla áhorfendasvæði sem húsið býður upp á var sneisafullt. Haf af hvítum ársmiðahúfum var fögur sjón af bekknum.

Vörn Gnúpverja var, eins og í undanförnum leikjum, ekki nægilega góð í byrjun. ÍA skoruðu 24 stig í fyrsta leikhluta gegn 18 stigum Gnúpverja. Vörnin fór þó að skána í öðrum leikhluta en þrátt fyrir að Gnúpverjar hafi náð að stela boltanum 17 sinnum í fyrri hálfleik var sóknin ekki beittari en svo að liðið var undir í hálfleik, 37 – 41. Aðeins eitt af fjórtán þriggja stiga skotum Gnúpverja fór ofan í í fyrri hálfleik.

Í hálfleik fengu tveir heppnir áhorfendur tækifæri til að vinna kassa af Kripsy Kreme kleinuhringjum og ársmiðaderhúfu Gnúpverja en hittu ekki úr skotum sínum frá miðju.

Jafnræði var meðal liðanna mestallan leikinn en ÍA komust mest í 9 stiga forskot í þriðja leikhluta. Í upphafi fjórða leikhluta var ÍA með tveggja stiga forystu þegar staðan var 59 – 57.

Leikurinn endaði ansi fjörlega. Þegar 54 sekúndur voru eftir skoraði Shouse úr tveimur vítaskotum sem kom ÍA í tveggja stiga forystu, 78 – 80. Í næstu sókn skoraði Þórir Sigvaldason úr þriggja stiga skoti og kom Gnúpverjum í 81 – 80 forystu. Í næstu sókn ÍA var dæmd sóknarvilla þegar Fannar Freyr Helgason braut á Garðari Pálma Bjarnasyni. Nú voru aðeins 26 sekúndur eftir af leiknum og Gnúpverjar með boltann. Það má segja að Garðar Pálmi Bjarnason hafi átt síðustu hálfu mínútuna í leiknum því að í næstu sókn átti hann frábært sóknarfrákast eftir geigað skot frá Everage Richardson og setti boltann í körfuna og jók mun Gnúpverja í þrjú stig. Aðeins fimm sekúndur voru eftir á þessum tímapunkti og hélt vörn Gnúpverja svo að sigurinn varð þeirra, 83 – 80.

Fyrsti sigur Gnúpverja í vetur því staðreynd og mikil ánægja í Fagralundi eftir þessi úrslit. Everage Richardson heldur áfram að leika frábærlega fyrir Gnúpverja og var hann með 37 stig, 7 fráköst og 4 stoðsendingar. Þórir Sigvaldason og Hamid Dicko voru einnig með 4 stoðsendingar hvor. Tómas Steindórsson átti frábæra innkomu af bekknum og hrifsaði til sín 10 fráköstum auk þess sem hann skoraði 6 stig. Garðar Pálmi Bjarnason var með næstflest stig á eftir Everage eða 10 talsins en þar á eftir var Bjarki Rúnar Kristinsson með 9 stig þrátt fyrir að spila einungis rétt rúmlega 11 mínútur í leiknum.

Nánari tölfræði og frekari upplýsingar um leikinn má nálgast á heimasíðu KKÍ.

Leikskýrsluhöfundur: Jóhannes Helgason, framkvæmdastjóri körfuknattleiksdeildar Gnúpverja.