Eftir góðan útisigur gegn ÍA í síðustu umferð tóku Gnúpverjar á móti FSu í Fagralundi í kvöld. FSu einu sæti neðar en Gnúpverjar í deildinni. Gnúpverjar í sjöunda sæti með 6 stig en FSu í því áttunda með 2 stig. Árangur FSu í vetur hefur valdið vonbrigðum þar á bæ en hafa engu að síður átt ágætis leiki í vetur og tapað sumum leikjum ansi naumt, voru til að mynda óheppnir að tapa fyrir Snæfelli með fjórum stigum í lok nóvember.

Gnúpverjar mættu ákveðnir til leiks þrátt fyrir að það vantaði nokkra í hópinn vegna meiðsla og annarra skylda sem menn þurftu að sinna. Hófu þeir leikinn afar vel og að frátöldum vítaskotum fóru 13 af 17 skotum Gnúpverja ofan í körfuna. Nokkuð jafnt var meðal liðanna framan af en í lok fyrsta leikhluta náðu Gnúpverjar að síga aðeins fram úr og var staðan eftir hann 29 – 21 heimamönnum í vil.

Annar leikhluti hófst á svipuðum nótum og náðu Gnúpverjar að auka muninn í 12 stig. FSu gáfu þó aðeins í og eftir 9 – 0 kafla frá þeim var munurinn allt í einu aðeins fjögur stig. Nær komust FSu þó ekki að sinni og tókst Gnúpverjum að auka muninn aftur og var staðan í hálfleik 57 – 44 fyrir Gnúpverjum

Hákon Már Bjarnason átti frábæran leik í dag og í fyrri hálfleik var hann með 7 fráköst, 7 stoðsendingar og 4 stig.

Örlítið hægðist á stigaskori heimamanna í seinni hálfleik en ánægjulegt var að sjá hversu vel Gnúpverjar nýttu klukkuna enda með ágætis forystu. Varnarleikurinn var fínn og skoruðu FSu aðeins 21 stig í þriðja leikhluta og 22 í þeim fjórða. FSu menn reyndu hvað þeir gátu að minnka muninn og ná Gnúpverjum en tókst það ekki. Leikplanið gekk frábærlega upp hjá Gnúpverjum og allir leikmenn sem komu við sögu stóðu sig afar vel. Það eina sem hægt var að finna að leik Gnúpverja í dag var vítanýtingin en ein 14 vítaskot fóru forgörðum í leiknum.

Í lok fjórða leikhluta kom Máté Dalmay, þjálfari Gnúpverja, sem var á skýrslu vegna manneklu, svo inn á við mikinn fögnuð nærstaddra. Er þetta í fyrsta skipti síðan liðið lék í 3. deild sem að Máté kemur við sögu í leik Gnúpverja en hann meiddist alvarlega í leik með Gnúpverjum á fyrsta tímabili liðsins. Afar ánægjulegt var að sjá hann koma inn á þarna í lokinn enda fáir sem hafa átt jafn mikinn þátt í velgengni Gnúpverja á undanförnum árum en þessi frábæri þjálfari okkar.

Everage Richardson endaði leikinn með 43 stig, 6 fráköst og 8 stoðsendingar. Atli Örn Gunnarsson var með 22 stig og 8 fráköst. Hákon Már Bjarnason var með 6 stig, 9 fráköst og 8 stoðsendingar. Ægir Hreinn Bjarnason var með 12 stig og Hraunar Karl Guðmundsson 9 stig. Tómas Steindórsson var með 9 fráköst.

Frábær liðssigur hjá Gnúpverjum og glæsilegur endir á flottu ári. Við hlökkum mikið til komandi árs og þökkum kærlega alla aðstoð og þann stuðning sem við höfum hlotið á árinu úr ýmsum áttum.

Nánari tölfræði og frekari upplýsingar um leikinn má nálgast á heimasíðu KKÍ.

Leikskýrsluhöfundur: Jóhannes Helgason, framkvæmdastjóri körfuknattleiksdeildar Gnúpverja.