Fyrirliði Gnúpverja, Tómas „Big Tom“ Steindórsson og ein skærasta knattspyrnustjarna Íslands um þessar mundir, Dagný Brynjarsdóttir, landsliðskona, stilla sér upp eftir leik. Dagný var að vonum mjög ánægð með úrslit leiksins enda mikill aðdáandi Gnúpverja og er Tómas þar í sérstöku uppáhaldi hjá henni. Tómas stóð sig að sjálfsögðu vel í leiknum og hrifsaði meðal annars til sín 12 fráköst.

Það eru þrjú lið frá suðurlandi Íslands að leika í 1. deild KKÍ í vetur. Tvö þeirra, Gnúpverjar og FSu áttust við í leik á Selfossi í kvöld. Körfuboltaakademía FSu er hin glæsilegasta. Þar er frábær aðstaða og eru nokkrir leikmenn liðs FSu á launum auk þess sem liðið hefur þjálfara og aðstoðarþjálfara sem þiggja laun. Á Selfossi búa um 7.000 manns og er engu til sparað þegar kemur að körfunni þar á bæ. Í Skeiða- og Gnúpverjahrepp er aftur á móti ekkert íþróttahús, leikmenn liðsins æfa á höfuðborgarsvæðinu, einn leikmaður liðsins þiggur laun og aðrir í liðinu og í kringum það eru í sjálfboðavinnu. Leikmenn Gnúpverja þurfa þar að auki að greiða töluverðar fjárhæðir úr eigin vasa í æfingagjöld til að dæmið gangi upp.

Fyrir tímabilið var Gnúpverjum spáð neðsta sæti í 1. deild með nokkuð afgerandi hætti á meðan FSu var spáð því þriðja.

Það eru því engar ýkjur þegar skrifað er að í kvöld hafi Davíð og Golíat mæst í Iðu, íþróttahúsi FSu. FSu höfðu þó tapað fjórum fyrstu leikjum sínum en Gnúpverjar náðu í sinn fyrsta sigur í þriðja leik sínum í deildinni gegn ÍA síðustu helgi.

Leikplan þjálfara Gnúpverja, Máté Dalmay, gekk fullkomlega upp. Hann vissi að ef Gnúpverjar myndu mæta ákveðnir til leiks og spila stífa vörn auk þess að leika agaðan sóknarleik myndu þeir valda FSu miklum vandræðum. Gekk það eftir og var staðan eftir fyrsta leikhluta 12 – 19 Gnúpverjum í vil. Þetta tókst með góðri vörn og fínum sóknarleik. Gnúpverjar höfðu ágætis tök á liði FSu og var staðan 34 – 45 fyrir Gnúpverjum í hálfleik.

Fyrri hálfleikur afar vel spilaður af Gnúpverjum sem náði að halda andlausu liði FSu í skefjum og eins og sést á stöðunni skoruðu FSu aðeins 34 stig í fyrri hálfleik.

Í upphafi þriðja leikhluta braut leikmaður númer 13 hjá FSu, Maciek Klimaszewski, af sér á fólskulegan hátt þegar hann gaf Hákoni Bjarnasyni olnbogaskot. Var honum eftir það að sjálfsögðu vísað úr leiknum af dómurnum.

Í þriðja leikhluta slökuðu Gnúpverjar síðan heldur vel á og hleyptu liði FSu aftur inn í leikinn eftir að hafa átt góða forystu í fyrri hálfleik. Fóru Gnúpverjar að spila lélega vörn og brjóta mikið á sér. Dómarar leiksins skelltu í flautukonsert og brutu Gnúpverjar alls 12 sinnum á sér í þessum leikhluta. Þessi slaka vörn varð til þess að FSu var aðeins tveimur stigum á eftir Gnúpverjum í lok þriðja leikhluta.

Áhlaup FSu hélt áfram í fjórða leikhluta og gerðu þeir sér lítið fyrir og komust yfir í fyrsta skiptið í leiknum þegar um sex mínútur voru eftir. En í stað þess að panikka héldu Gnúpverjar ró sinni. Þeir fundu sinn varnarleik aftur, sýndu mikinn karakter á erfiðum útivelli, náðu forystunni  aftur og sigldu þessum sigri í land. Lokaniðurstaðan 87 – 96 sigur Gnúpverja.

Fjölmargir aðdáendur Gnúpverja lögðu leið sína á þennan erfiðara útivöll og erum við afar þakklátir fyrir þann dygga stuðning sem við fundum fyrir í kvöld.

Everage Richardson heldur áfram að vera gríðarlegu happafengur fyrir Gnúpverja en hann var með 47 stig, 7 fráköst og 3 stoðsendingar. Hákon Már Bjarnason var einnig frábær í leiknum en átti hann 9 fráköst, 4 stoðsendingar og 6 stig. Var Hákon með flestar stoðsendingar Gnúpverja í leiknum. Tómas Steindórsson átti frábæra innkomu af bekknum og reif niður 12 fráköst auk þess sem hann skoraði 8 stig. Næst stigahæstur í liði Gnúpverja á eftir Everage var svo Ægir Hreinn Bjarnason með 11 stig. Aðrir skoruðu minna en liðið lék frábærlega og skilaði bekkur Gnúpverja 26 stigum gegn 15 stigum frá bekk FSu.

Frábær sigur gegn FSu staðreynd en Gnúpverjar ætla ekki að dvelja við hann lengi heldu fara strax að einbeita sér að næsta leik.

Nánari tölfræði og frekari upplýsingar um leikinn má nálgast á heimasíðu KKÍ.

Leikskýrsluhöfundur: Jóhannes Helgason, framkvæmdastjóri körfuknattleiksdeildar Gnúpverja.