Fjölnir tók á móti Gnúpverjum í Grafarvogi í kvöld. Fjölnir voru með þrjá sigra úr fyrstu sex leikjum sínum og Gnúpverjar tvo úr fyrstu fimm. Líklegt verður að teljast að Fjölnir og Gnúpverjar verði á svipuðum stað í deildinni í vetur og því um gríðarlega mikilvægan leik að ræða fyrir bæði lið.

Mikil deyfð var yfir leik beggja liða í fyrra hálfleik og lítið um skemmtilegan körfubolta og margir áhorfendur eflaust að velta því fyrir sér að skella sér bara heim í hálfleik. Hraðinn í leiknum var lítill og hvorugt lið að gera einhver áhlaup eða taka stjórn á leiknum. Staðan í hálfleik var 42 – 39 Fjölni í vil.

En það var svo í þriðja leikhluta sem eitthvað fór loksins að gerast. Gnúpverjar skelltu í lás í vörninni og héldu Samuel Prescott Jr., besta leikmanni Fjölnis, algjörlega í skefjum. Sóknin gekk prýðilega og voru Gnúpverjar þarna loksins farnir að sýna sínar bestu hliðar eftir dapran fyrri háfleik. Skoruðu Gnúpverjar 28 stig í þriðja leikhluta gegn aðeins 13 stigum Fjölnis. Munurinn þegar einn leikhluti var eftir því kominn í 12 stig og staðan 55 – 67 fyrir Gnúpverjum.

Gnúpverjar héldu áfram að spila vel framan af í fjórða leikhluta og var munurinn mestur 17 stig þegar rúmar tvær mínútur voru liðnar af fjórða leikhluta.

Ekki er gott að segja hvað gerðist þegar líða tók á fjórða leikhluta en í stuttu máli þá misstu Gnúpverjar þetta forskot algjörlega niður. Á rúmlega fjögurra mínútna kafla skoruðu Fjölnismenn 19 stig gegn aðeins 2 stigum Gnúpverja og jöfnuðu leikinn þegar rúmar þrjár mínútur voru eftir. Vörnin sem hafði verið svo góð í seinni hálfleik fram að þessu hreinlega hvarf og skoruðu Fjölnismenn svo að segja að vild. Á sama tíma var engin yfirvegun í sóknarleik Gnúpverja og ekki einu sinni hægt að skella skuldinni á lélega skotnýtingu þar sem Gnúpverjum tókst sjaldan að koma sér í góð færi.

Staðan var því 78 – 78 þegar um þrjár mínútur voru eftir og skiptust liðin á að leiða leikinn hér eftir en munurinn varð aldrei meiri en þrjú stig. Gnúpverjar jöfnuðu leikinn í 91 – 91 þegar 29 sekúndur voru eftir en Fjölnismenn fengu tvö víti þegar þrjár sekúndur voru eftir, settu annað og þar við sat. Fjölnir sigraði leikinn 92 – 91. Verulega sárt tap þegar litið er til forskotsins sem Gnúpverjar höfðu sem og allra skiptana þar sem einföld opin skot geiguðu og 10 vítaskotanna sem fóru forgörðum.

Það hefur gerst allt of oft á því litla sem liðið er af þessu tímabili að Gnúpverjar detti í kafla þar sem andstæðingar þeirra skora mikið af stigum á stuttum tíma. Hafa Gnúpverjar þannig misst niður forskot sem og misst lið of langt fram úr sér. Ljóst er að liðið þarf að geta staðið svona áhlaup af sér með betri hætti og spila þann körfubolta sem það hefur sýnt að það getur spilað í fjóra leikhluta en ekki bara á köflum í leikjum.

Everage Richardson var með 45 stig á tæplega 33 mínútum í leiknum. Næst á eftir Everage í stigaskori var Þórir Sigvaldason með 12. Þá voru þrír leikmenn Gnúpverja með 8 stig: Garðar Pálmi Bjarnason, Ægir Hreinn Bjarnason og Bjarki Rúnar Kristinsson. Hákon Már Bjarnason var með flest fráköst í liði Gnúpverja eða 6 talsins. Everage Richardson var stoðsendingahæstur í liði Gnúpverja með 3 stoðsendingar og Hákon Már Bjarnason var með 2.

Nánari tölfræði og frekari upplýsingar um leikinn má nálgast á heimasíðu KKÍ.

Leikskýrsluhöfundur: Jóhannes Helgason, framkvæmdastjóri körfuknattleiksdeildar Gnúpverja.