Aðeins tíu dögum eftir risastórt tap Gnúpverja gegn Breiðablik í 1. deildinni mættust liðin aftur í Smáranum í bikarleik.

Eftir ágætis leik gegn Vestra í deildinni föstudeginum áður voru Gnúpverjar staðráðnir í að standa sig betur gegn Breiðablik. Leikurinn fór engu að síður vægast sagt illa af stað og héldu margir að um endurtekið efni væri að ræða. Eftir aðeins þriggja mínútna leik voru Breiðablik búnir að skora 12 stig gegn aðeins tveimur frá Gnúpverjum. Máté Dalmay hendir þá skiljanlega í leikhlé. Eftir þetta leikhlé fóru Gnúpverjar hægt og rólega að vinna sig inn í leikinn með ágætis spilamennsku og betri vörn. Staðan eftir fyrsta leikhluta var 23 – 20 Breiðablik í vil.

Jafnræði var meðal liðanna í öðrum leikhluta og var staðan 45 – 42 fyrir Breiðablik í hálfleik. Spilamennska Gnúpverja var allt önnur en í fyrri viðureign liðanna og ljóst að leikmönnum og þjálfurum Breiðablik þótti þetta óþægilegt. Gnúpverjar voru að gefa þeim leik sem þeir áttu ekki von á.

Þriðji leikhluti fór vel af stað og á 22. mínútu komust Gnúpverjar yfir þegar staðan var 45 – 46. Á 24. mínútu voru Breiðablik einu stigi yfir en eftir það hrundi leikur Gnúpverja og Breiðblik gáfu í. Frá 24. mínútu til þeirrar 28. skoraði Breiðablik 17 stig gegn aðeins 2 stigum Gnúpverja. Þarna var því allt í einu kominn 16 stiga munur og Breiðablik höfðu loksins náð að slíta sig frá Gnúpverjum.

Gnúpverjar náðu aldrei að brúa þetta bil og endaði leikurinn 93 – 77 fyrir Breiðablik.

Gnúpverjar geta verið ánægðir með margt í sinni spilamennsku en auðvitað ekkert fagnaðarefni að tapa leik með 16 stigum. Það var þó allt annar bragur á Gnúpverjum og leyfi ég mér að fullyrða að það var farið að fara um nokkra Blika í Smáranum þetta kvöld. Engu að síður þarf að laga varnarleik liðsins og koma í veg fyrir að liðið missi tökin á leiknum á stuttum tíma en þetta gerðist einnig í leik Gnúpverja gegn Vestra á föstudaginn var.

Stigahæstur í liði Gnúpverja var Everage Richardson með 32 stig en Þórir Sigvaldason kom þar næst á eftir með 13. Hamid Dicko skoraði þá 9 stig og Hraunar Karl Guðmundsson 7. Everage var 6 fráköst og Hákon Már Bjarnason 5.

Nánari tölfræði og frekari upplýsingar um leikinn má nálgast á heimasíðu KKÍ.

Leikskýrsluhöfundur: Jóhannes Helgason, framkvæmdastjóri körfuknattleiksdeildar Gnúpverja.